Vopnahlé á langt í land

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, segir að engin niðurstaða sé komin í tilraunum Egypta og fleiri ríkja til að koma á vopnahléi á Gasasvæðinu.

Støre, sem aðstoðar Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands, í samningaviðræðum í Kaíró, segir við Aftenposten í kvöld, að það kunni að líða nokkrir dagar áður en niðurstaða fæst í vopnahlésviðræðum.

Fyrr í kvöld var haft eftir egypskum embættismönnum að Hamassamtökin, sem fara með stjórn á Gasasvæðinu, hefðu fallist á skilyrði fyrir vopnahléi og það yrði staðfest á blaðamannafundi. Á þeim fundi neitaði Salah al-Bardawil, einn af leiðtogum Hamas, hins vegar að gefa skýr svör og fordæmdi þess í stað hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna á Gasasvæðinu.

Bardawil sagði að Hamas myndi ekki fallast á samkomulag sem ekki tryggði, að Ísraelsmenn færu af svæðinu með her sinn og opnuðu landamærastöðvar fyrir umferð.   

Segir þjóðarmorð framið á Gasa

Miguel d'Escoto Brockmann, forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, hefur kynnt sér ástandið á Gasasvæðinu. Hann sagði við arabísku sjónvarpsstöðina Al-Jazeera, að ástandið þar væri óþolandi og fórnarlömbunum fjölgaði dag frá degi. „Þetta er þjóðarmorð," sagði hann.

D'Escoto Brockmann er fyrrum utanríkisráðherra Níkaragva og hefur lengi verið afar gagnrýninn á Ísrael. Hann hefur líkt meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku. 

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, kom til Gasasvæðisins í dag til að beita sér fyrir vopnahléi.

Skotið á óbreytta borgara á flótta?

Breska ríkisútvarpið BBC segist hafa heyrt lýsingar Palestínumanna á því, að ísraelskir hermenn hafi skotið á óbreytta íbúa á Gasasvæðinu þegar þeir reyndu að flýja ófriðarsvæðin. Í sumum tilfellum hafi fólkið haldið á hvítum veifum.

Ísraelsher hefur vísað þessu á bug og segir fullyrðingar af þessu tagi uppspuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert