Ný skoðanakönnun sem gerð var meðal almennings í Ísrael sýnir að mikill meirihluti Ísraela styður hernaðaraðgerðir Ísraela á Gasasvæðinu. Innan við 10% þátttakenda í könnuninni segjast telja hernaðaraðgerðirnar mistök. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Samkvæmt könnuninni telja 82% aðspurðra Ísraelsher ekki hafa gengið of langt í aðgerðum sínum.
Fylgi Verkamannaflokksins stendur í stað í 16 þingsætum samkvæmt könnuninni en fylgi stjórnarflokksins Kadima og stjórnarandstöðuflokksins Likud hefur minnkað lítillega. Kadima fengi 25 þingsæti en Likud 29 þingsæti samkvæmt könnuninni yrði gengið til kosninga nú.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar njóta hægriflokkarnir nú meira fylgis en vinstriflokkar í Ísraela og því er líklegt að Benjamin Netanyahu, formaður Lokud-flokksins leiði næstu ríkisstjórn Ísraels. Þó er útlit fyrir erfitt og flókið stjórnarsamstarf hægriflokkanna þar sem fylgið er dreift á mjög marga flokka með mjög misjafnar áherslur.
Samkvæmt könnuninni hefur fjórðungur kjósenda hins vegar ekki enn gert upp hug sinn. Kosningar fara fram í Ísrael innan mánaðar. Telja fréttaskýrendur líklegt að margir kjósendur muni ekki gera upp hug sinn fyrr en afleiðingar hernaðaraðgerðanna fara að skýrast.
Könnunin var gerð fyrir Haaretz-Dialog og hafði Camil Fuchs, prófessor og yfirmaður tölfræðideildar Tel Aviv háskóla umsjón með framkvæmd hennar. 561 einstaklingar tóku þátt í henni og eru skekkjumörk hennar 4,3%.