Ísraelar hafa hert mjög á hernaðaraðgerðum sínum á Gasasvæðinu undanfarna klukkutíma á sama tíma og staðhæft er að samkomulag um vopnahlé sé í nánd í viðræðum fulltrúa Ísraela og Palestínumanna í Egyptalandi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Ísraelskir hermenn eru nú komnir á skreiðdrekum inn í miðborg Gasaborgar eftir að hafa haldið sig í úthverfum borgarinnar undanfarna daga og hefur komið til harðra átaka á milli þeirra og herskárra Palestínumanna.
Talsmenn Ísraelshers segja að árásir hafi verið gerðar á 70 skotmörk á Gasasvæðinu í morgun, m.a. á mosku sem notuð hafi verið sem vopnageymsla.
Fréttaskýrendur telja að Ísraelar vilji reiða herskáum Palestínumönnum sem þyngst högg áður en vopnahlé tekur gildi. Þá er sú óvissa sem fylgir valdatöku Baracks Obama í Bandaríkjunum, væntanlegum kosningum í Ísrael og því að ekki hafi tekist að stöðva kjarnorkuáætlun Írana sögð ýta mjög undir vilja þeirra til að veikja stöðu herskárra Palestínumanna sem mest á meðan þeir hafa tækifæri til þess.
Hamada Abu Qammar, fréttaritari BBC á svæðinu segir að fréttir hafi borist af 21 dauðsfalli í átökum og árásum á svæðinu í morgun. Engar staðfestar fréttir hafa þó borist af mannfalli.
1.028 Palestínumenn og þrettán Ísraelar eru sagðir hafa látið lífið frá því Ísraelar hófu hernaðaraðgerðir á Gasasvæðinu þann 27. desember.