Miliband fordæmir stríð gegn hryðjuverkum

David Miliband
David Miliband POOL

Utanríkisráðherrann breski, David Miliband, gagnrýndi í morgun harkalega stríðið gegn hryðjuverkum, sem bandarísk yfirvöld hafa leitt. Hann kallaði eftir alþjóðlegri samstöðu um að í framtíðinni yrði lögum framfylgt en þau ekki hunsuð.

Miliband segir hryðjuverkastríðið mistök

Miliband kallaði einnig eftir því að fangabúðum í Guntanamo yrði lokað og að nýtt tímabil hæfist sem myndi fela í sér lýðræðisleg tækifæri frekar en ótta og kúgun. Miliband flutti ræðu sína í Mumbai, en í nóvember var gerð þar hryðjuverkaárás sem banaði 164. Ræðan er ein sú fyrsta sem háttsettur breskur embættismaður flytur opinberlega gegn hryðjuverkastríðinu sem hófst árið 2001. Miliband skrifaði ritstjórnargrein í dagblaðið Guardian sem birt var í dag þar sem hann hélt því sama fram.

Bresk stjórnvöld hafa ekki notað hugtakið „stríð gegn hryðjuverkum“ síðan árið 2006 og, að því er Miliband segir, er ástæðan sú að hugtakið er villandi og misskilið.

„Sagnfræðingar munu dæma um hvort það hefur gert meira gagn en ógagn. En við verðum að horfa til framtíðar og mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Miliband.

Með ræðu sinni gerir Miliband lítið úr kenningum George W. Bush Bandaríkjaforseta um hvernig berjast skal gegn hryðjuverkum. Sú kenning hefur verið við lýði frá því ráðist var á Bandaríkin 11. september 2001.  Miliband neitar því hins vegar að tímasetning ræðu hans tengist því að Bush er  á síðustu metrunum í embætti.

Miliband sagði að skipun Obama á  Hillary Clinton sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna sýndi að tilvonandi Bandaríkjastjórn bergmálaði sínar eigin hugsanir um að nýta snjalla blöndu af valdi, hernaðarmætti og ráðsnilld.  

„Nýja stjórnin hefur lífsreglur sem ganga mjög vel upp við  þau gildi og forgangsmál sem ég er að tala um,“ er haft eftir Miliband í Guardian.

Fyrr í vikunni hitti Miliband forsætisráðherra Indlands, ásamt fleiri þjóðarleiðtogum, til að ræða rannsókn árásanna í Mumbai.  Miliband sagði blaðamönnum að hann væri sammála fullyrðingum Inverja um að herskáu samtökin Lashkar-e-Taiba hefðu gert árásirnar. Samtökin eru frá Pakistan og Miliband segir Pakistana bera ábyrgð á því að ráðast að rótum Lashkar.

Miliband tók þó fram að hann gæti ekki verið sammála þeirri ályktun Indverja að pakistanska ríkið hefði tekið þátt í árásinni. Ásakanir í þá veru hafa valdið spennu milli ríkjanna tveggja sem bæði eru vígbúin kjarnorkuvopnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert