Olmert segir að skotið hafi verið frá byggingu SÞ

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, staðhæfði í samtali við Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í dag að skotið hafi verið á ísraelska hermenn frá höfuðstöðvum stofnunarinnar í Gasaborg áður en Ísraelsher gerði árás á bygginguna og lagði hana í rúst. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Fyrr í dag bað Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, Ban Ki-moon afsökunar á árásinni og sagði hana mistök sem tekin væru mjög alvarlega. Ban hafði þá fordæmt árásina og krafist rannsóknar á henni.

Tugir létu lífið er Ísraelsher gerði í síðustu viku loftárás á stúlknaskóla Sameinuðu þjóðanna í Jabalya, þar sem almennum borgurum hafði verið ráðlagt að leita skjóls. Eftir atvikið staðhæfði Ísraelsher að skotið hafi verið á ísraelska hermenn frá skólanum og að lík herskárra Palestínumanna hefðu fundist í honum að árásinni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert