Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist hafa mjög miklar áhyggjur af stöðu mannúðarmála á Gaza. Fyrr í dag ræddi hún við ísraelska ráðamenn um átökin og ofbeldisverkin á Gaza, segir talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins.
Rice hringdi í ísraelsk stjórnvöld í kjölfar þess að Ísraelsher gerði loftárásir á Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna á Gaza með þeim afleiðingum að þrír starfsmenn særðust. Eldur kviknaði í vörugeymslu þar sem mörg tonn af hjálpargögnum voru geymd. Þá urðu hjálparstofnanir á vegum SÞ að leggja niður störf tímabundið vegna árásarinnar.
„Ástandið er skelfilegt,“ segir Sean McCormack, talsmaður utanríkisráðuneytisins. Hann sagði að Rice hefði hringt í Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, og Tzipi Livni, forsætisráðherra Ísraels, fyrr í dag.
Hann segir að von sé á sendifulltrúa frá Ísrael til Bandaríkjanna. Fundað verði í utanríkisráðuneytinu um drög að vopnahléi.
„Við vinnum af krafti, og leitumst við að koma á vopnahléi samkvæmt þeim skilmálum sem þegar hefur verið rætt um,“ sagði McCormack við blaðamenn og bætti við að mikilvægt sé að samkomulag náist um vopnahlé sem náist að halda og að engin tímamörk séu á því.
Talsmaður Flóttamannaaðstoðar SÞ á Gaza segir að tugmilljóna dala tjón hafi orðið í árás Ísraela í dag. Fjölmargir hafa fordæmt árásina t.a.m. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB.