Hefur áhyggjur af stöðu mannúðarmála á Gaza

Rice segist hafa miklar áhyggur af stöðu mála á Gaza.
Rice segist hafa miklar áhyggur af stöðu mála á Gaza. Reuters

Condo­leezza Rice, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, seg­ist hafa mjög mikl­ar áhyggj­ur af stöðu mannúðar­mála á Gaza. Fyrr í dag ræddi hún við ísra­elska ráðamenn um átök­in og of­beld­is­verk­in á Gaza, seg­ir talsmaður banda­ríska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Rice hringdi í ísra­elsk stjórn­völd í kjöl­far þess að Ísra­els­her gerði loft­árás­ir á Flótta­mannaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna á Gaza með þeim af­leiðing­um að þrír starfs­menn særðust. Eld­ur kviknaði í vöru­geymslu þar sem mörg tonn af hjálp­ar­gögn­um voru geymd. Þá urðu hjálp­ar­stofn­an­ir á veg­um SÞ að leggja niður störf tíma­bundið vegna árás­ar­inn­ar.

„Ástandið er skelfi­legt,“ seg­ir Sean McCormack, talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Hann sagði að Rice hefði hringt í Ehud Barak, varn­ar­málaráðherra Ísra­els, og Tzipi Livni, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, fyrr í dag.

Hann seg­ir að von sé á sendi­full­trúa frá Ísra­el til Banda­ríkj­anna. Fundað verði í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu um drög að vopna­hléi.

„Við vinn­um af krafti, og leit­umst við að koma á vopna­hléi sam­kvæmt þeim skil­mál­um sem þegar hef­ur verið rætt um,“ sagði McCormack við blaðamenn og bætti við að mik­il­vægt sé að sam­komu­lag ná­ist um vopna­hlé sem ná­ist að halda og að eng­in tíma­mörk séu á því.

Talsmaður Flótta­mannaaðstoðar SÞ á Gaza seg­ir að tug­millj­óna dala tjón hafi orðið í árás Ísra­ela í dag. Fjöl­marg­ir hafa for­dæmt árás­ina t.a.m. Gor­don Brown, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, og Jose Manu­el Barroso, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert