Vopnahlé túlkað sem uppgjöf Hamas

Palestínumenn leita verðmæta í rústum húss á Gasasvæðinu.
Palestínumenn leita verðmæta í rústum húss á Gasasvæðinu. AP

Klofningur er nú sagður kominn upp innan palestínsku Hamas-samtakanna eftir þriggja vikna hernað Ísraelashers gegn þeim á Gasasvæðinu. Svo virðist sem leiðtogar samtakanna á Gasasvæðinu vilji fallast á drög að vopnahléi sem Egyptar hafa lagt fram, þar sem þeir geri sér grein fyrir því að orrustan sé töpuð, en að leiðtogar samtakanna í Sýrlandi vilji það ekki.

Fulltrúar samtakanna vísa þó öllum fréttum af klofningi á bug og segja þær áróðursbragð Ísraela og Egypta sem miði að því að þrýsta á samtökin til að fallast á samkomulagið. 

Fréttaskýrendur eru flestir sammála um að samkomulagsdrögin geti ekki talist samtökunum í hag. Samkvæmt þeim munu Ísraelar vera áfram á Gasasvæðinu þar til vopnahlé hefur tekið gildi og landamæri þess verða lokuð uns samkomulag hefur náðst um opnun þeirra.

Þá er þar kveðið á um að liðsmenn öryggissveita Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna á Vesturbakkanum, taki að sér landamæraeftirlit á landamærum Gasasvæðisins og Egyptalands.

Fréttaskýrendur segja að það hljóti því að teljast sigur Ísraela verði þau samþykkt. Þá benda þeir á að erfitt verði fyrir leiðtoga Hamas að réttlæta gífurlegt mannfall á meðal Palestínumanna gangi þeir að samkomulaginu.

Klofningur meðal araba 

Einnig hefur verið bent á að átökin hafi þegar leitt til klofnings á meðal arabaþjóða í málefnum Palestínumanna en Egyptar og Sádi-Arabar hafa lagt hart að Palestínumönnum að samþykkja opnahlé á grundvelli umræddra hugmynda. Sýrlendingar og Íranar hafa hins vegar lagst gegn því.

Það hefur þó vakið athyggi hversu hófsamir leiðtogar Írana hafa verið í yfirlýsingum sínum um hernaðaraðgerðir Ísraela á Gasasæðinu að undanförnu og er það talið merki um að þeir vonist eftir bættum samskiptum við Bandaríkin eftir að Barack Obama tekur við embætti þann 20. janúar.

Rúmlega þúsund Palestínumenn eru sagðir hafa látið lífið frá því Ísraelar hófu hernaðaraðgerðir sínar á Gasasvæðinu þann 27. desember. Rúmri viku fyrr höfðu Hamas-samtökin lýst því yfir að sex mánaða vopnahlé þeirra og Ísraela væri útrunnið og að þau myndu ekki framlengja það.

 Samráð ómögulegt? 

Forsvarsmenn samtakanna segja að allar ákvarðanir samtakanna séu nú, sem fyrr, teknar sameiginlega af um 50 meðlimum Shura-ráðs samtakanna sem búi bæði á Gasasvæðinu, Vesturbakkanum og utan palestínsku sjálfstjórnarsvæðanna.

Virkt samráð þessara aðila er þó sagt ómögulegt í reynd við þær aðstæður sem nú séu á Gasasvæðinu.

Valdamesti maður samtakanna er að öllu jöfnu talinn vera Khaled Mashaal, leiðtogi samtakanna í Sýrlandi, sem sagður er vera tengiliður þeirra við yfirvöld í Sýrlandi og Íran og því stjórna peningaflæði þaðan. Hann hefur lýst sig andvígan samkomulagsdrögunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert