Yngsta fanganum í Guantánamo verði sleppt

Fangar í Guantánamo.
Fangar í Guantánamo.

Bandarískur dómari hefur úrskurðað að fangi í bandarísku fangabúðunum við Guantánamoflóa á Kúbu skuli leystur úr haldi. Fanginn, sem er 21 árs, var handtekinn í Pakistan þegar hann var 14 ára og hefur því verið í fangabúðunum frá því hann var 14 ára. Dómarinn telur að Bandaríkjastjórn hafi ekki sýnt fram á að maðurinn sé „óvinastríðsmaður".

Fanginn heitir Mohamed el-Gharani og er kanadískur ríkisborgari. Hann var handtekinn í mosku í Pakistan í október 2001. Lögmaður  el-Gharanis segir, að Bandaríkjamenn hafi sakað hann um að vera félaga í hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda árið 1998, þegar hann var aðeins 11 ára.

Bandaríkin hafa einnig fullyrt að  el-Gharani hafi tekið þátt í bardögum í Tora Bora í Afganistan eftir innrás Bandaríkjamanna í landið haustið 2001. Þá hafi hann starfað sem sendiboði fyrir háttsetta leiðtoga al-Qaeda.

Dómarinn taldi hins vegar að engin göng hefðu verið færð fram til að styðja þessar ásakanir og bandarískir embættismenn hefðu aðallega reitt sig á upplýsingar frá tveimur föngum í Guantánamo. Trúverðugleiki þeirra væri hins vegar takmarkaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert