Alda mótmæla breiðist út um A-Evrópu

Mótmælendur bera þjóðfána Búlgaríu í átt að þinghúsinu í Soffíu.
Mótmælendur bera þjóðfána Búlgaríu í átt að þinghúsinu í Soffíu. Reuters

Lögreglan í Vilnius í Litháen þurfti að beita táragasti til að leysa upp hóp reiðra mótmælenda sem köstuðu steinum og eggjum að byggingu þingsins á föstudag.

Einn lögreglumaður og tveir aðrir slösuðust í átökunum, sem kemur þremur dögum eftir að  áþekk mótmæli í nágrannalandinu Lettlandi leiddu til átaka á götum úti þar sem um 40 manns slösuðust.

Óeirðir brutust einnig út í mótmælum gegn stjórnvöldum í Búlgaríu en alda óánægju og reiði út af efnahagsástandinu, aðgerðum stjórnvalda og spillingu breiðist nú út í löndum í austanverðri Evrópu.

Sjö þúsund manns söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í Vilnius til að mótmæla hækkandi sköttum og öðrum umbótaaðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn vaxandi efnahagsvanda.

Miðjuflokkaríkisstjórn Andrius Kubilius forsætisráðherra, sem komst til valda í október sl., hefur verið gagnrýnd fyrir óvinsælar skattahækkanir til að laga fjármál ríkisins.

Óeirðirnar brutust út  þegar lögreglan stuggaði við mótmælendum sem gerðu sig líklega til að nálgast þinghúsið og kröfðust áheyrnar hjá þingforsetanum. Grjóti og eggjum var kastað að lögreglumönnum sem beittu táragasi til að dreifa fólkinu.

Í Lettlandi handtók lögregla rúmlega 100 manns á þriðjudag eftir að mótmælendur köstuðu grjóti að lögreglu, brutu rúður og rændu vínbúð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert