Árás á Hamas-leiðtoga siguryfirlýsing?

Slasaðir fluttir úr húsinu þar sem Said Siam lét lífið.
Slasaðir fluttir úr húsinu þar sem Said Siam lét lífið. AP

Mohammed Nazzal, einn af leiðtogum Palestínsku Hamas-samtakanna, hét í gær hefndum fyrir árás Ísraela á Said Siam (Sayyam), einn af þremur hæst settu leiðtogum Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, á Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Siam, sem gegndi embætti innanríkisráðherra í ríkisstjórn Hamas á svæðinu, lét lífið í loftárás Ísraelsmanna á heimili bróður hans í Gasaborg í gær. Siam var stofnandi lögreglusveita Hamas-samtakanna og einn helsti hvatamaður þess að Hamas-samtökin tóku völdin á Gasasvæðinu árið 2007.

Fréttaskýrendur í Ísrael, segja að svo virðist sem tilgangur Ísraelshers með árásinni á Siam hafi verið sá að undirstrika sigur sinn í hernaðaraðgerðunum á Gasasvæðinu sem staðið hafa í þrjár vikur. Þrátt fyrir að enn liggi ekki opinber staðfesting á því er talið að samkomulag um vopnahlé liggi að mestu fyrir á milli deiluaðila með milligöngu Egypta.

Rúmlega þúsund Palestínumenn eru sagðir hafa látið lífið í árásum Ísraela og átökum við þá og eru skemmdir á Gasasvæðinu sagðar gríðarlegar.

Said Siam
Said Siam AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert