Yfirvöld í Ísrael hafa vísað á bug skilyrðum Hamas-samtakanna um vopnahlé, en talsmaður samtakanna lýsti því yfir í morgun að þau væru tilbúin til að fallast á eins árs vopnahlé gegn því að Ísraelar stöðva árásir sínar í Gasa, draga hermenn sína til baka og hætta að hindra aðgang að svæðinu. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
Ísraelar setja tímatakmörkin sérstaklega fyrir sig og segjast hafa áhyggjur af því að tímabundið vopnahlé muni einungis gefa Hamas-liðum tíma til að útvega ný vopn og safna kröftum til að geta hafið árásir á Ísrael að nýju.
„Tímatakmörk á vopnahléi eru mistök,” segir ónefndur ísraelskur embættismaður. „Við sáum það best þegar síðasta vopnahlétímabil rann út. Það var nýtt af sumum sem afsökun fyrir því að fjölga árásum. Ótímabundið vopnahlé er það sem við þurfum.”
Ísraelar hafa fram til þessa neitað því að tímatakmörk hafi verið á síðasta vopnahléi þeirra og Hamas-samtakanna en forsvarsmenn Hamas lýstu því yfir í desember að vopnahlé sem samið var um í sumar hefði einungis verið til sex mánaða og að samtökin myndu ekki framlengja það. Egyptar staðfestu þá staðhæfingu Ísraela um að tímatakmörk hefðu ekki verið sett í vopnahléssamkomulaginu.
Eftir að Hamas lýsti vopnahléið útrunnið hófu herskáir Palestínumenn að gera flugskeytaárásir frá Gasasvæðinu yfir landamærin til Ísraels. Viku síðar hófu Ísraelar hernaðaraðgerðir á Gasasvæðinu sem Palestínumenn segja að hafi kostað rúmlega eitt þúsund Palestínumenn lífið.