Opið hús hjá Obama

Verkemenn við Hvíta húsið í Washington. Nú er unnið hörðum …
Verkemenn við Hvíta húsið í Washington. Nú er unnið hörðum höndum að því að allt sé til reiðu þegar Obama sver embættiseið sem næsti forseti Bandaríkjanna. AP

Barack Obama, sem tekur formlega við embætti Bandaríkjaforseta á þriðjudag, hyggst bjóða almenningi að skoða Hvíta húsið degi eftir embættistökuna þann 21. janúar.

Aðstoðarmenn Obama greindu í dag frá fyrirætlunum hans að hafa opið hús við 1600 Pennsylvania Avenue, sem er heimilisfang Hvíta hússins.

Obama vill að ríkisstjórn sín verði bæði opin og gagnsæ. Í rauninni vill hann að hún fari ótroðnar slóðir í því efni. Hann vill því bjóða stuðningsmönnum sínum að koma í heimsókn. Hann hvetur þá jafnframt að taka virkan þátt í því sem sé að gerast hverju sinni.

Takmarkað magn miða er hins vegar í boði.

Hugmyndin er þó ekki ný af nálinni því þetta svipar til þess sem Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, gerði árið 1993 þegar hann hafði tekið við forsetaembættinu með formlegum hætti. Þá bauð hann um 2000 stuðningsmönnum, sem höfðu verið dregnir út í sérstöku happadrætti, að kíkja í Hvíta húsið. Sú heimsókn var hins vegar takmörkuð við móttökusalinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert