Palestínski kvensjúkdómalæknirinn og friðarsinninn Ezzeldeen Al-Aish á marga vini í Ísrael enda starfaði hann lengi á ísraelskum sjúkrahúsum og hlaut þar þjálfun sína. En nú syrgir hann þrjár dætur sem hann missti í árás Ísraelshers.
Læknirinn, sem er 55 ára og býr nú á Gaza, talar ágæta hebresku og hefur verið tíður gestur í símtölum á sjónvarpsskjám í Ísrael eftir að átökin hófust. Hefur hann sagt frá þeim vanda sem við er að stríða á sjúkrahúsum vegna átakanna. Sjálfur hann tekið þátt í ýmsum verkefnum gegnum tíðina sem hafa haft það að markmiði að ýta undir gagnkvæman skilning og frið, einnig hefur hann rannsakað áhrifin sem átökin hafa á börn beggja þjóðanna.
En einnig hefur hann lýst áhyggjum af átta börnum sínum. Og í gær skýrði hann grátandi í símtali frá því að þrjár dætur hans og frænka hefðu látið lífið í sprengjuárás Ísraela. ,,Ég vill fá að vita af hverju ráðist var á dætur mínar. [Ehud] Olmert ætti aldrei að fá að gleyma þessu," sagði hann.
Harmleikur Al-Aish varð til þess að fjölmargir Ísraelar hringdu í stöðina til að tjá honum samúð sína, ekki síst þeir sem þekktu hann fyrir.