Greiða atkvæði um vopnahlé

Ísraelsmenn gerðu harðar árásir á skotmörk á Gasasvæðinu í morgun og létu kona og barn meðal annars lífið þegar sprengjum var varpað á skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna í bænum Beit Lahiya þar sem óbreyttir borgarar höfðu leitað skjóls. Svonefnt öryggisráð Ísraels mun síðar í dag greiða atkvæði um tillögu um vopnahlé á Gasa.

„Þetta undirstrikar enn á ný þann harmleik, að enginn staður er öruggur á Gasa," sagði  Christopher Gunness, talsmaður Flóttamannaaðstoðar SÞ í morgun. „Það er ekkert skjól."

Palestínumenn segja, að 1200 manns hafi látið lífið í hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna, sem hafa nú staðið í 22 daga. Talið er að Ísraelsmenn hafi gert 50 árásir á jarðgöng, eldflaugarskotpalla og meintar vopnageymslur Hamasliða, þar á meðal tvær moskur. Tveggja ára gamalt barn og þrír aðrir létu lífið í árásunum í morgun. 

Ísraelsstjórn samþykkti að taka vopnahléstillögu til meðferðar í dag eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum og Egyptalandi hétu því að taka þátt í að stöðva vopnasmygl frá Egyptalandi til Gasasvæðisins.

Tillögurnar gera ráð fyrir því að Ísraelsmenn hætti aðgerðum þótt Hamassamtökin leggi ekki fram skuldbindingar á móti. Ísraelsher verði hins vegar áfram á svæðinu um ótiltekinn tíma. Gert væri ráð fyrir því að Hamas muni einnig hætta árásum „en ef þeir ákveða að hefja skothríð munum við ekki hika við að svara og halda aðgerðum okkar áfram," sagði ónafngreindur embættismaður við AFP fréttastofuna.

Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, skrifaði í gær undir samning ásamt  Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem Bandaríkin skuldbinda sig til að aðstoða við að stöðva vopnasmygl til Gasa.

Ísraelskir landamæraverðir við
Ísraelskir landamæraverðir við Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka