Varnarmálaráðuneyti Ísraela tilkynnti í kvöld að lýst væri yfir einhliða vopnahléi á Gaza-svæðinu eftir árásir sl. 22 daga.
Átta meðlimir öryggisráðsins voru samþykkir því að lýsa yfir vopnahléi, tveir voru því mótfallnir og einn sat hjá.
Ísrael mun halda hersveitum sínum á Gaza-svæðinu í nokkra daga eftir að tilkynna einhliða um vopnahlé. Þetta hefur AFP-fréttastofan eftir háttsetum manni innan ísraelska hersins.
„Landgönguliðið mun vera áfram á Gaza-svæðinu í nokkra daga,“ segir maðurinn sem ekki vildi láta nafns síns getið. „Það mun flytja sig milli vígvalla og hörfa með skipulegum hætti til baka.“
Vera kunni að eitthvað verði um sprengjuhríð fyrst eftir að vopnahléinu verði lýst yfir en eftir það muni herinn bara bregðast við árásum.
Einhliða vopnahlé gerir Ísraelum kleift að binda endi á árásir sínar á Gaza-svæðinu án þess að gangast inn á neitt samkomulag við Hamas-liða, sem hafa heitið því að hætta ekki baráttu sinni fyrr en að Ísraelsher dragi sig til baka frá Gaza og opni landamærastöðvar. Segir Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísrael, Ísraela hafa náð öllum þeim markmiðum sem þeir settu sér með árásunum á Gaza-svæðið.
Að minnsta kosti 1,205 Palestínumenn, þar af 410 börn, hafa látist í árásum Ísraelshers sem eru taldar þær mannskæðustu á svæðið til þessa. Þá hafa rúmlega 5.000 manns til viðbótar særst.