Yfirmenn hersins í Norður-Kóreu hafa tilkynnt að þeim hafi tekist að gera úranbirgðir sínar nothæfar í kjarnorkusprengju.
Um er að ræða 3,8 kg af úrani og hafa yfirvöld í Suður-Kóreu aukið viðbúnað við landamæri ríkjanna í kjölfar tilkynningarinnar. En vopnaviðbúnaður við landamæri Norður- og Suður-Kóreu er með því mesta sem þekkist að sögn Herald Tribune.
Norður-Kórea hefur lengi berað vígtennurnar gegn grannanum í suðri og jukust slíkir tilburðir enn frekar eftir að Lee Myung Bak tók við embætti forseta Suður-Kóreu fyrir ári síðan. Hét hann þá að taka harðari afstöðu til Norður-Kóreu eftir þíðutímabil áratuginn á undan. Það sem gerir þessa nýjustu ógn hins vegar óvenjulega, er hvernig hún var tilkynnt. Hún var lesin upp í norður-kóreanska sjónvarpinu af starfsmannastjóra hersins. „Sterkar hernaðaraðgerðir munu fylgja,“ hefur suður-kóreska fréttastofan Yonhap, sem fylgist með norður-kóreskum fjölmiðlum, eftir hershöfðingjanum.
30 kg af úrani duga til að búa til fjórar til fimm kjarnorkusprengjur að sögn kjarnorkusérfræðinga.