Flugskeytaárásir á Ísrael

Ísraelskir hermenn fara yfir landamærin til Gaza í morgun
Ísraelskir hermenn fara yfir landamærin til Gaza í morgun Reuters

Þrátt fyrir að varnarmálaráðuneyti Ísrael hafi í gærkvöldi lýst yfir einhliða vopnahléi þá var flugskeytum skotið á suðurhluta Ísraels í nótt, einungis nokkrum klukkustundum eftir að vopnahlé tók gildi. Ekki er vitað um mannfall né skemmdir í Ísrael vegna árásanna. Að minnsta kosti 4 flugskeyti lentu í bænum Sderot, samkvæmt upplýsingum frá Ísrael. 

Þrátt fyrir ákvörðun um vopnahlé þá ætlar Ísraelsher ekki að yfirgefa Gazasvæðið í bráð en Hamas-samtökin neita að skrifa undir vopnahlésamninga á meðan  Ísraelsher en enn á Gaza, samkvæmt frétt BBC.

Tæplega 1.200 Palestínumenn létust í árásum Ísraela sem stóðu yfir í rúmar þrjár vikur. 13 Ísraelar hafa látist á sama tíma. Fleiri þúsund eru særðir og gríðarleg eyðilegging blasir við á Gaza-svæðinu.  

Fljótlega eftir að flugskeytunum var skotið á Ísrael hófu ísraelskir hermenn skotbardaga við Hamas-liða í norðurhluta Gaza-strandarinnar. Að sögn  yfirmanns í her Ísraela voru það Hamas-liðar sem áttu upptökin.

Í dag munu ýmsir þjóðarleiðtogar hittast á fundi í Egyptalandi til þess að ræða vopnahlé. Meðal annars munu ýmsir evrópskir leiðtogar taka þátt í fundinum, forseti Egyptalands, Hosni Mubarak, leiðtogi Palestínumanna, Mahmoud Abbas og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna,  Ban Ki-moon.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert