Tékkar sem fara nú með embætti forseta Evrópusambandsins, kölluðu í dag eftir því að Hamas-liðar lýstu samstundis yfir vopnahléi og að Ísraelar fylgdi vopnahlésyfirlýsingu sinni eftir með því að opna fyrir umferð að Gaza-svæðinu.
Ísraelskar hersveitir og Hamas-liðar skiptust áfram á skotum í dag, þrátt fyrir einhliða yfirlýsingu Ísraela um vopnahlé. Loftárásir frá Ísrael og eldflaugar Hamas-liða hafa því haldið áfram að ógna viðkvæmu ástandi á svæðinu. Hefur Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísrael, varað við því að lítið þurfi til að rjúfa vopnahlésyfirlýsinguna og að hún sætti stöðugri endurskoðun.
„Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að heimila Ísraelsher að svara árásum haldi óvinur okkar á Gaza-svæðinu áfram árásum sínum,“ sagði Olmert við upphaf ríkisstjórnarfundar í Jerúsalem.
„Það hefur sýnt sig í morgun að vopnahléið er viðkvæmt og það verður að endurmeta það frá einni mínútu til annarrar,“ sagði hann. „Við vonum að árásunum linni. Ef þær halda áfram mun Ísraelsher svara.“
Sjúkraliðar á Gaza-svæðinu hafa nýtt sér vopnahléið til að fara inn þau svæði sem hvað verst hafa orðið úti í árásunum. Höfðu þeir grafið upp 95 lík frá því að vopnahléinu var lýst yfir. Flestir hinna látnu fundust í bæjunum Jabaliya og Beit Lahiya á norðurhluta Gaza-svæðisins, en einnig fannst fólk látið í Zeitun, úthverfi Gaza-borgar, að sögn Dr. Muawiya Hassanein, sem fer fyrir neyðarstarfinu á Gaza-svæðinu.
Tala þeirra sem fallið hafa í árásunum á Gaza-svæðið er nú komin upp í rúmlega 1,300 manns.