Íbúar Washington hafa tekið vel á móti Barack Obama, sem sver embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna á þriðjudag, en hann kom til borgarinnar í dag. Tónlistarmenn og stjörnur á borð við U2, Bruce Springsteen og Beyonce taka nú lagið fyrir framan Lincoln-minnisvarðann þar sem Obama er hylltur.
Fyrr í dag lagði Obama blómsveig við Gröf hinna óþekktu í Virginíu til að minnast fallinna hermanna. Hann lagði hönd á hjarta þegar hann var í þjóðargrafreitnum í Arlington.
Stjörnur á borð við Stevie Wonder, Usher, Mary J. Blige og Sheryl Crow munu einnig taka lagið í dag. Búist er við að um hálf milljón manna muni taka þátt í hátíðarhöldunum.