Fyrsti Rauði Khmerinn fyrir rétt

Meðal fórnarlamba þeirra þúsunda sem voru pyntuð og drepin í …
Meðal fórnarlamba þeirra þúsunda sem voru pyntuð og drepin í Tuol Sleng fanglesinu í Kambódíu mbl.is/Una

Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna í Kambódíu hefur tilkynnt að fyrstu réttarhöldin yfir einum leiðtoga Rauðu Khmeranna muni hefjast um miðjan febrúar. Sá fyrsti af fimm leiðtogum sem ákærðir hafa verið fyrir glæpi gegn mannkyninu, Kaing Guek Eav, betur þekktur sem Duch, verður leiddur fyrir rétt þann 17. febrúar.

Duch var yfirstjórnandi stærsta pyntingafangelsis Rauðu khmeranna, Tuol Sleng eða S21, í höfuðborginni Phnom Penh.  Hann er ákærður fyrir að hafa ýmist framkvæmt sjálfur eða fyrirskipað margskonar ofbeldisglæpi s.s. morð, pyntingar, ofsóknir og nauðganir í pólitísku yfirskini. Hryllingsverkin voru framin á árunum 1975-79 þegar Rauðu Khmerarnir sátu við völd í Kambódíu og a.m.k. 1,7 milljónir manna létust af völdum sjúkdóma, hungurs, ofbeldis og aftaka.

30 ár eru nú liðin síðan ógnarstjórn Rauðu Khmeranna var steypt eftir árás Víetnama. Enginn leiðtogi þeirra hefur enn verið dreginn fyrir dóm, þrátt fyrir að 13 ár séu liðin síðan lagt var til að stríðsréttadómstóll yrði stofnaður. Óttast margir að réttlætið muni aldrei ná fram að ganga, eins og raunin varð í tilfelli leiðtoga þeirra, einræðisherrans Pol Pot sem lést á heimili sínu árið 1998.

Hinir leiðtogarnir fjórir sem bíða réttarhalda eru Khieu Samphan, þá þjóðhöfðingi, Ieng Sary, þáverandi utanríkisráðherra og kona hans Ieng Tirith sem var félagsmálaráðherra, auk Nuon Chea, helsta hugmyndafræðings stjórnar Rauðu Khmeranna. Dauðarefsing er ekki lengur við líði í Kambódíu og gæti því hámarksdómur verið ævilangt fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert