Ismail Haniya, forsætisráðherra Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, staðhæfði í morgun að einungis 48 liðsmenn hernaðararms samtakanna hefðu látið lífið í hernaðaraðgerðum Ísraela á undanförnum þremur vikum. Áður hafa palestínskir embættismenn staðhæft að um 1.200 manns hafi látið lífið í aðgerðum Ísraela, um helmingur þeirra almennir borgarar. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Haniya lýsti jafnframt yfir sigri samtakanna í átökunum við Ísraela, en þrettán Ísraelar hafa látið lífið frá því Haniya lýsti því yfir þann 19. desember að samtökin myndu ekki endurnýja sex mánaða vopnahlé sitt og Ísraela.
„Þrátt fyrir öll sárin, gafst fólk okkar ekki upp heldur sýndi einstaka þrautseigju,” sagði hann. „Guð hefur gefið okkur mikinn sigur, ekki bara einni fylkingu, einum flokki, eða svæði heldur allri þjóð okkar. Við höfum bundið enda á árásirnar og óvininum hefur mistekist að ná markmiðum sínum.
Ísraelar lýstu yfir einhliða vopnahléi á laugardag og degi síðar lýstu Hamas- samtökin yfir vikulöngu vopnahléi.
Haniya, sem er forsætisráðherra Hamas á Gasasvæðinu hefur verið felum frá því hernaðaraðgerðir Ísraela hófust þann 27. desember. Viku fyrr hafði hann lýst því yfir að Hamas-samtökin myndu ekki endurnýja sex mánaða vopnahlé sitt og Ísraela. Ísraelar vildu hins vegar framlengja vopnahléið.