Íraski blaðamaðurinn sem kastaði skónum sínum í George Bush Bandaríkjaforseta hefur sótt um pólitískt hæli í Sviss, samkvæmt svissneska dagblaðinu Tribune de Geneve. Muntadar al Zaidi hefur verið í gæsluvarðhaldi í Írak frá hinum sögulega blaðamannafundi með Bush um miðjan desember.
Tribune de Geneve vitnar í lögfræðing al Zaidi, sem segir að hann óttist um öryggi sitt í fangelsinu í Baghdad. Hann heldur því að sama skapi fram að hann muni ekki geta snúið aftur til fyrri starfa í Írak að afloknum dómi. Sagt er að al Zaidi hafi sætt barsmíðum í varðhaldinu sem ollu handleggsbroti, brotnum rifbeinum og innvortis blæðingum.
Lögfræðingu hans, Mauro Proggia segist hafa skrifað bréf til utanríkisráðuneytisins í Sviss þar sem hann óskar eftir pólitísku hæli. „Jafnvel þótt fjölmargir Írakar styðji verknað hans, þá er líf hans komið upp á náð og miskunn ýmissa öfgamanna,“ er haft eftir Proggia. „Líf hans mun verða helvíti á jörð í þessu landi.“
Hinsvegar gæti hann hæglega hafið nýtt líf í Sviss þar sem hann gæti t.d. sinnt blaðamannastarfinu að nýju fyrir Sameinuðu þjóðirnar, að mati lögfræðingsins, enda sé hann ókvæntur og barnlaus. Réttarhöldum yfir Zaidi var frestað í lok desember vegna deilna um hvort heldur skuli kæra fyrir árás eða svívirðingar á hendur Bandaríkjaforseta.