Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti því yfir er hann heimsótti Gasasvæði í dag að hann væri mjög sleginn yfir aðstæðum þar í kjölfar þriggja vikna hernaðaraðgerða Ísraela. Þá hvatti hann til rannsóknar á öllum dauðsföllum sem tengjast átökum Ísraela og Palestínumanna. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Ég hef frá því átökin brutust út fordæmt þá hörku sem Ísraelar beittu í hernaði sínum á Gasasvæðinu. Ég álít flugskeytaárásir á Ísraela óréttlætanlegar. Við verðum að endurheimta grunvallarvirðinguna fyrir mannslífum,” sagði hann.„Það síendurtekna ofbeldi sem Palestínumenn og Ísraelar búa við er til marks um það að pólitískir leiðtogar þeirra hafa brugðist.”
Frá Gasasvæðinu fer Ban til bæjarins Sderot, í suðurhluta Ísraels, sem ítrekað hefur orðið fyrir flugskeytum Palestínumanna. Fyrir ferð sína til Gasa hitti hann einnig Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels. Segir talsmaður Ban hann hafa á þeim fundi lýst gleði sinni yfir því að Ísraelar skuli hafa hætt hernaðaraðgerðum sínum á Gasasvæðinu.