Herlið frá Rúanda er nú komið yfir landamærin til Austur-Kongó þar sem herliðinu er ætlað að berjast gegn herskáum hútúum frá Rúanda samkvæmt samkomulagi við yfirvöld í Austur-Kongó.
Hersveitirnar munu verða staðsettar í nágrenni Kibati flóttamannabúðanna norður af Goma, héraðshöfuðborg Norður Kivu héraðs.
Samkvæmt heimildum Jean-Paul Dietrich, talsmanna friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna í Austur-Kongó eru um 2.000 hermenn í herliðinu sem fór yfir landamærin í morgun.
Áður hafa starfsmenn stofnunarinnar og talsmenn hjálparsamtaka á svæðinu lýst áhyggjum af því að skortur á samhæfingu aðgerða og samráði við alþjóðasamfélagið muni leiða til þess að ástandið versni enn frekar.