Samtökin The Ku Klux Klan hafa að undanförnu hvatt stuðningsmenn sína til að bera svört sorgarbönd í dag til að mótmæla embættistöku Barack Obama, fyrsta blökkumannsins í embætti forseta Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Á vefsíðu samtakanna er fólk hvatt til að bera sorgarbönd í dag og á morgun og til að flagga fána Norðurríkjanna í borgarastríðinu í Bandaríkjunum á hvolfi, eigi það slíkan fána.
Samkvæmt upplýsingum bandarísku alríkislögreglunnar FBI hefur umferð um vefsvæði hægri öfgamanna aukist mjög í Bandaríkjunum frá því Obama var kjörinn forseti í nóvember.
Joe Persichini, starfsmaður FBI segir fólk þó hafa skoðana og tjáningarfrelsi en að hann hafi áhyggjur af hugsanlegum aðgerðum þessa hóps. Öryggisviðbúnaður vegna embættistöku Obama er gríðarleg og er hans og fjölskyldu hana nú gætt í aðgerðum sem eiga sér enga fyrirmynd hvað umfang varðar.
Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna segir engar vísbendingar hafa borist um að árás hafi verið undirbúin en að yfirvöld séu þó við öllu búin m.a. efnavopnaárás. Milljónir manna hafa safnast saman í nágrenni við þinghúsið í Washington til að fygjast með embættistöku Obama síðar í dag.
Hefur umferð verið bönnuð á stóru svæði,brúm verið lokað og flugumferð yfir borginni takmörkuð. Þá er vopna leitað á öllum þeim sem hleypt er inn fyrir ákveðið öryggissvæði meðfram leiðinni sem Obama mun fara til og frá þinghúsinu.
Áður hefur verið greint frá því að útbúinn hafi verið sérstakur eðalvagn, fyrir Obama, sem á að standast bæði sprengju- og efnavopnaárásir.