Flugvallaryfirvöld á Glasgow-flugvelli hafa áhyggjur af því að hópar svana sem flykkjast frá Íslandi til Skotlands á veturna geti orsakað flugslys svipað því sem varð í Hudson-ánni í New York í síðustu viku. Þá flaug hópur gæsa inn í hreyfla farþegavélar og 155 farþegar komust naumlega lífs af. Að sögn talsmanna flugvallarins í Glasgow geta flugvélar geti verið í hættu vegna stórra svanahópa sem hafast að í námunda við flugbrautirnar á veturna.
Í gær sögðu eigendur vallarins að þeir vildu losna við fuglana sem margir hverjir eru mjög stórir og geta orðið allt að 15 kíló að þyngd. Af því getur þó ekki orðið þar sem fuglarnir eru friðaðir og búa á svæði sem þykir vísindalega mikilvægt. Svanirnir, sem eru um 100 talsins, hafast að við Black Cart Water-ána en hún er, ásamt votlandinu í kring, friður samkvæmt lögum Evrópusambandsins.
Talsmenn flugvallarins hafa þó sagt farþegum að hafa engar áhyggjur, vel væri fylgst með fuglunum til að koma í veg fyrir slys líkt og það sem varð í New York. „Það verður alltaf viss hætta á því að fuglar fljúgi inn í hreyfla véla. Við reynum þó að koma í veg fyrir það. Við höfum skipulagt fuglavaktir allan sólarhringinn,“ sagði talsmaður flugvallarins.
Samkvæmt skýrslu frá 2007 hafa fuglar lent 93 sinnum á flugvélum við Glasgow-flugvöll á árunum frá 1998 til 2006.