Konur í Bretlandi koma verr út úr þeim efnahagsþrengingum sem nú eru að ganga yfir en karlar, samkvæmt niðurstöðum nýrrar breskrar rannsóknar.Samkvæmt henni hefur staða kvenna á vinnumarkaði veikst meira á undanförnum mánuðum en nokkru sinni fyrr. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt könnuninni, sem unnin er af TUC, jókst atvinnuleysi meðal kvenna um 2.3%, á síðasta ári en það er helmingi meiri aukning en hjá körlum. Hlutfallslega fleiri konur eru nú á breskum vinnumarkaði en í fyrri fjármálakreppum og bera þær nú stærri hluta af framfærslu heimilanna en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt könnuninni hafa konur í fimmtu hverju fjölskyldu á Bretlandi nú hærri tekjur en makar þeirra.
„Fækkun stöðugilda í umönnunar og þjónustustörfum, sem frekar er sinnt af konum en körlum, vegur nú upp á móti fækkun stöðugilda í greinum sem karlar sækja í svo sem framleiðslu og byggingariðnaði,” segir Brendan Barber, framkvæmdastjóri TUC.
„Það er þó líklegt að fækkun starfsmanna í karlagreinum veki fremur athygli fjölmiðla þar sem konur vinna gjarnan á minni vinnustöðum þar sem uppsagnir vekja ekki jafn mikla athygli.”
Rannsóknin er byggð á atvinnuleysistölum síðasta árs en von er á nýjum atvinnuleysistölum í Bretlandi í dag.