Fáir íbúar Gazaborgar sáu ástæðu til að verða við óskum Hamas-leiðtoga í gær um að taka þátt í útifundi til að fagna sigri yfir Ísraelum, að sögn fréttamanns BBC á svæðinu. Áður gátu Hamasmenn auðveldlega fengið tugþúsundir manna til að fara út á göturnar en nú mættu aðeins nokkur hundruð gallharðir flokksfélagar.
Gangan endaði við rústirnar af þinghúsi Gazaspildunnar en Ísraelar sprengdu það í tætlur í upphafi árásanna. Um 1300 Palestínumenn féllu í árásunum og 13 Ísraelar. Hamasmenn segja þó að mun fleiri Ísraelar hafi í reynd fallið. Einnig fullyrða þeir að aðeins 48 vígamenn úr röðum þeirra hafi verið meðal hinna 1300 föllnu en Ísraelar segja hins vegar að um 500 vígamenn hafi fallið.
Fréttamaðurinn segir að sé tala Hamas-manna rétt hljóti menn að spyrja hvort vígamenn þeirra hafi raunverulega reynt að berjast við ísraelsku hermennina. Hann segir reyndar erfitt að finna menn sem raunverulega geti sýnt fram á að þeir hafi barist gegn árásarliðinu.
Og hann ræðir við Yusef, bónda frá Jabaliya-svæðinu sem gerði sér bál úr gömlum eldhússkápum til að hlýja sér, Ísraelar höfðu eyðilagt húsið hans. En hann kenndi ekki þeim einum um. ,,Ég áfellist bæði Ísraela og Hamas. Ég vil bara fá að lifa."