Obama stöðvar Guantánamoréttarhöld

Barack Obama hafði ekki verið lengi í embætti Bandaríkjaforseta þegar hann skipaði saksóknurum að leita eftir hléi í öllum þeim réttarhöldum, sem standa yfir í fangabúðunum við Guantaánamoflóa á Kúbu.  

Herdómarar taka ákvörðun um beiðni Obama í dag en hún myndi hafa áhrif á réttarhöld yfir fimm föngum grunuðum um aðild að hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin árið 2001. Einnig hefur þetta áhrif á mál síðasta Vesturlandabúans í fangabúðunum, en hann er ákærður fyrir að verða bandarískum hermanni að bana með handsprengju í Afganistan. 

Obama hefur heitið því að loka Guantánamobúðunum. Frestun réttarhaldanna gerir forsetanum og stjórn hans kleift að fara yfir störf herráðsins, sem séð hefur um málarekstur tengdan búðunum og þau mál, sem þar eru til meðferðar. Gert er ráð fyrir að málunum verði frestað til 20. maí.

Ríkisstjórn Georges W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, setti á fót sérstaka herrétti árið 2006 til að fjalla um mál fanga í Guantánamo. 21 fangi hefur verið ákærður og 14 til viðbótar hafa komið fyrir dómara. Alls eru 245 fangar í búðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert