Deilt um árangur innrásar

Ísraelskir hermenn á Gaza.
Ísraelskir hermenn á Gaza. Reuters

Innrásin á Gaza-svæðið naut mikils stuðnings almennings í Ísrael en nú þegar síðustu hermennirnir hafa yfirgefið svæðið verður spurningin um tilgang árásarinnar sífellt háværari. Sumir segja að árásin hafi einungis orðið til þess að ímynd Ísraels hafi beðið hnekki og öryggi þjóðarinnar því stefnt í hættu. Aðrir segja að herinn hefði átt að ljúka verkefni sínu.

Gagnrýni heyrist jafnt frá hægrisinnuðum sem vinstrisinnuðum sem spyrja um árangur, hvort niðurstaðan sé aðeins mikið mannfall Palestínumanna og blettur á alþjóðlegu orðspori Ísraels. Yfirlýstur tilgangur árásarinnar var að binda endi á eldflaugasendingar Palestínumanna á Ísrael.

Gagnrýnendur úr röðum vinstrisinnaðra segja að með blóðbaðinu hafi orðspor Ísraela beðið hnekki. „Við höfum ekki náð að veikja Hamas. Meirihluti bardagamanna þeirra særðist ekki og stuðningur almennings við samtökin hefur í raun aukist,“ segir Gideon Levy, þekktur pistlahöfundur hjá miðju-vinstra dagblaðinu Haaretz. Hann bendir jafnframt á að innrásin hafi átt að hafa fyrirbyggjandi áhrif og hræða Hamas-liða frá því að ráðast á Ísrael, rétt eins og áætlunin var í Líbanonstríðinu. Sú hafi þó ekki orðið raunin.

Gagnrýni úr röðum hægrimanna hefur einnig verið harkaleg. „Hermönnunum tókst ætlunarverk sitt en stjórnmálamennirnir brugðust,“ hefur dagblaðið The Times eftir Avigdor Lieberman úr þjóðernisflokknum Yisrael Beiteinu, sem hefur notið aukins fylgis frá því að innrásin hófst. „Þeir leyfðu hernum ekki að ljúka aðgerðunum. Hver er árangurninn? Enginn,“ segir Lieberman.

Eli Yishai, fjármálaráðherra Ísraels og leiðtogi rétttrúnaðarflokksins Shas, segir að Ísraelar hefðu átt að berjast þar til Hamas yrði eytt. „Nú byggir Hamas innviði sína á ný með írönskum peningum og svo munu þeir halda áfram að smygla og skjóta á Ísrael. Við hefðum átt að ljúka verkinu - draga landherinn burt en halda áfram loftárásum,“ hefur The Times eftir Yishai.

Áhyggjur hafa heyrst af því að árásin á Gaza hafi veikt stöðu Mahmoud Abbas, forseta palestínskra yfirvalda og leiðtoga Fatah-flokksins. Abbas hefur lengi átt í viðræðum við Ísrael til að vinna að stofnun palestínsks ríkis. Hamas, sem vex meðal grasrótarinnar, býður hinsvegar aðeins tímabundið vopnahlé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka