Barack Obama hefur unnið fyrsta pólitíska sigur sinn eftir að hann tók við embætti Bandaríkjaforseta: Hann fær að halda BlackBerry símanum sínum þrátt fyrir andstöðu leyniþjónustunnar og lögmanna ríkisstjórnarinnar.
Miklar vangaveltur hafa verið um hvort Obama fengi að halda símanum sínum en bent hefur verið á, að farsími sé ekki öruggur og hugsanlega sé hægt að hlera hann eða fylgjast með honum.
„Forsetinn er með BlackBerry og hann hefur náð málamiðlun um að hann getur notað símann til að vera í sambandi við háttsetta starfsmenn og lítinn hóp vina," sagði Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, í kvöld. „Þetta er afar lítill hópur fólks. Öryggisráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja að hann geti átt þessi samskipti og jafnframt að þau séu örugg," sagði Gibbs.
Talsmaðurinn upplýsti ekki hverjar þessar öryggisráðstafanir væru og hvort einhverskonar dulkóðun væri notuð til að hindra að tölvuþrjótar geti brotist inn í símann eða fylgst með merkjum frá hinum.
Tímaritið The Atlantic segir, að forsetinn muni nota venjulegan BlackBerry sem sé búinn „ofurdulkóðunarbúnaði", útbúnum af leyniþjónustustofnun.
Gibbs staðfesti að tölvupóstar, sem forsetinn sendir eða fær muni heyra undir lög sem sett voru eftir Watargatehneykslið en samkvæmt þeim eru öll fjarskipti forsetans skráð.
Obama var jafnan með BlackBerry í beltinu eða í hendinni þegar hann háði kosningabaráttuna á síðasta ári og hann hefur sagt, að síminn væri mikilvægur þáttur í áætlunum hans um hvernig hann ætlaði að brjótast út úr einangrun Hvíta hússins.
„Þetta er aðeins eitt tæki af nokkrum sem ég reyni að nota til að komast út úr lofttóminu og tryggja að fólk geti náð sambandi við mig. Ef ég er að gera eitthvað heimskulegt getur einhver í Chicago sent mér tölvupóst og spurt: Hvað ertu eiginlega að gera?" sagði Obama við CNN.
„Ég vil geta verið í sambandi við aðra en nánustu samstarfsmenn mína, aðra sem geta sagt mér hvað er að gerast í Ameríku."