Fjárlaganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti að staðfesta útnefningu Timothy Geithner í embætti fjármálaráðherra landsins þótt Geithner hefði viðurkennt mistök við skattframtöl á árum áður. Öldungadeildin mun nú greiða atkvæði um Geithner.
Fjárlaganefndin samþykkti með 18 atkvæðum gegn 5 að senda málið til öldungadeildarinnar. Barack Obama vonast til að afgreiðsla málsins taki ekki langan tíma svo Geithner geti strax hafist handa við að skipuleggja endurreisn bandaríska efnahagslífsins.
Geithner kom fyrir nefndina í gær og baðst þá afsökunar á kæruleysislegum mistökum, sem hann hefði gert og leiddu til þess að hann greiddi ekki 34 þúsund dali í skatta fyrir nokkrum árum þegar hann starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.