Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sór embættiseið sinn aftur í kvöld að viðstöddum John Roberts, forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Obama sór eiðinn á svölum þinghússins í Washington á þriðjudag en fipaðist þegar hann fór með eiðstafinn.
Obama sór eiðinn á ný í kortaherbergi Hvíta hússins í kvöld.
„Við teljum ekki að neinir hnökrar hafi verið á svardaganum og að forsetinn hafi verið settur í embætti með viðeigandi hætti í gær," sagði Greg Craig, ráðgjafi í Hvíta húsinu. „En eiðstafurinn stendur í stjórnarskránni sjálfri. Og til að gæta allrar varúðar, vegna þess að einu orði var hnikað til, lét Roberts dómforseti sverja eiðinn í annað sinn."
Þegar Obama sór eiðinn í fyrra skiptið las Roberts eiðstafinn og Obama hafði orð hans eftir. Roberts ruglaðist aðeins í orðaröðinni og það virtist koma Obama í opna skjöldu þannig að hann virtist óviss á textanum.
Tveir aðrir Bandaríkjaforsetar hafa endurekið embættiseiðinn undir svipuðum kringumstæðum, þeir Calvin Coolidge og Chester A. Arthur.
Obama sagðist í kvöld hafa beðið yfirmenn Bandaríkjahers að útbúa áætlanir um „ábyrgt" brotthvarf bandarískra hersveita frá Írak.