Árásarmaðurinn aðeins tvítugur

Maðurinn sem réðist inn á dagheimili í Belgíu í dag vopnaður hnífi, er tvítugur að aldri og belgískur ríkisborgari. Hann myrti tvö smábörn og einn starfsmann. Tíu börn og tveir starfsmenn eru slasaðir eftir manninn, þar af nokkur börn alvarlega.

Maðurinn ruddist inn á dagheimilið snemma í morgun og lagði til barnanna á dagheimilinu. Starfsfólk fékk ekki við neitt ráðið og þegar maðurinn hafði lokið sér af lagði hann á flótta á reiðhjóli sínu. Hann var handtekinn skömmu síðar.

Mikil skelfing greip um sig í bænum og þustu foreldrar að dagheimilinu þegar fréttist af árásinni. Átján börn á aldrinum þriggja til sex ára voru í gæslu.

Lögreglan segir árásarmanninn tvítugan. Hann er belgískur ríkisborgari, fæddur og uppalinn í landinu. Christian Du Four, saksóknari, segir manninn hvorki hafa strokið af geðdeild né annarri viðlíka stofnun. Þá hafi maðurinn ekki verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eða lyfja. Árásarmaðurinn er í haldi lögreglu og hefur ekki viljað tjá sig um ódæðið.

Filippus krónprins Belgíu og Matthildur krónprinsessa komu til Dendermonde í dag og hittu sjúkraflutningamenn, lögreglu og foreldra barna á dagheimilinu.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert