Um 50 búrhvalir syntu á land á lítilli eyju við strönd Tasmaníu í Ástralíu í gær. Að sögn ástralskra fjölmiðla eru allir hvalirnir nema tveir dauðir og er talið að erfitt verði að bjarga þeim vegna þess hve þeir eru stórir. Karldýrin geta orðið allt að 18 metra löng.
Í desember syntu um 150 grindhvalir á land á Tasmaníu og tókst þá að reka 30 hvali út á sjó aftur. Margir hvalanna drápust af áverkum sem þeir fengu þegar þeir syntu yfir hvasst grjót.
Hvalavöður synda reglulega á land í Ástralíu og Nýja-Sjálandi og hafa vísindamenn ekki getað gefið á því skýringu. Ein kenning er að utanaðkomandi hljóð, svo sem frá skipum, trufli „siglingakerfi" hvalanna.