Danmörk: Dæmd fyrir að láta umskera dætur sínar

Dómstóll í Glostrup í Kaupmannahöfn hefur kveðið dóm yfir konu,  fæddri í Súdan, fyrir að hafa látið umskera tvær dætur sínar. Konan er danskur ríkisborgari og braut þar með lög um bann við umskurði stúlkna frá 2003. Þetta er í fyrsta sinn sem dæmt er samkvæmt lögum þessum.

Konan var dæmd í 2ja ára fangelsi, þar af eitt og hálft ár skilorðsbundið. Sex mánuðina sem eftir standa mun hún þó ekki þurfa að afplána nema að litlu leyti þar sem til frádráttar kemur fjögurra og hálfs mánaðar gæsluvarðhald.

Í upphafi voru bæði konan, sem er 41 árs að aldri, og eiginmaður hennar kærð fyrir að hafa skipulagt ferðir til Súdan 2003 og 2006 til að láta umskera dæturnar tvær. Faðirinn bar fyrir réttinum að hann hafi ekki vitað um tilgang ferðanna og var hann sýknaður.

Samkvæmt frétt Politiken krafðist saksóknarinn að móðirin yrði dæmd í fjögurra ára skilorðslaust fangelsi en dómurinn féllst ekki á það. Hann ákvað einnig að nöfn yrðu ekki birt til að vernda dæturnar og fjölskylduna.

Stúlkurnar eru í dag 10 og 12 ára gamlar. Báðir foreldrarnir héldu því fram að þau hefðu ekkert vitað af umskurðinum. Móðirin bar því við að hún hefði haldið að þegar systur hennar tóku börnin hefðu þær farið til að láta ormhreinsa þær.

Foreldrarnir voru handteknir 2008 þegar kennari heyrði samtal sem gaf til kynna að fjölskyldan væri á leið til Súdan til að láta umskera yngri dóttur sem þá var 5 ára. Kennarinn hafði samband við félagsmálayfirvöld og foreldrarnir voru handteknir í kjölfarið.

Foreldrarnir eiga alls fjögur börn og eru frá Eritreu en voru í fjölda ára í flóttamannabúðum í Súdan. Faðirinn fékk landvistarleyfi í Danmörku og síðar ríkisborgararétt sem pólitískur flóttamaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka