Hamas-leiðtogar afhentu konu á Gaza-svæðinu, sem hafði misst hús sitt í árásum Ísraela, 500 Bandaríkjadali í dag og er það fyrsta greiðslan af fleirum sem samtökin hafa lofað íbúum svæðisins til enduruppbyggingar og nauðþurfta. „Við erum við stjórn og við höfðum betur,“ hafði AP fréttastofan eftir Hamas-leiðtoganum Mushir al-Masri fyrr í vikunni.
Hamas-samtökin hafa lofað að veita 52 milljónum dollara til fórnarlamba átakanna og hefur upphæðinni verið skipt upp eftir þörfum. 1,300 dollarar verði veittir þeim sem hafa misst einhvern úr fjölskyldunni. 650 dollarar fyrir þá sem hafa særst, 5,200 dollarar fyrir eyðilagt hús og 2,600 dollarar fyrir hús sem hefur orðið fyrir tjóni.
Meira en 4,000 hús eyðilögðust í sprengingunum og 20,000 urðu fyrir skemmdum. Hamas þyrfti því risafjárhæðir til að fjármagna enduruppbygginguna en talið er að 2 milljarða Bandaríkjadala þurfi til verksins. Alþjóðasamfélagið hefur hinsvegar hingað til neitað því að gefa fjármagn beint til samtakanna.
Íbúar á Gaza virðast fylkja sér að baki Hamas, sameinaðir í hatri sínu á Ísrael, þó að einnig heyrist gagnrýniraddir. „Hamas voru þeir einu sem börðust við Ísraela,“ hefur AP eftir Samir Summad, 66 ára sem missti fjögurra hæða hús sitt í síðustu viku í sprengingu sem varð Said Siam, einum leiðtoga Hamas að bana.