Lögreglumaður myrti konu í Tromsö

Lögregla á bílastæðinu þar sem skotárásin var gerð.
Lögregla á bílastæðinu þar sem skotárásin var gerð. Reuters

Lögreglan í Tromsø í Noregi segir, að maðurinn, sem skaut konu til bana utan við barnaskóla í borginni, hafi verið lögreglumaður. Hann skaut síðan sjálfan sig og lögreglan sagði í morgun að hann hefði látist af sárum sínum á sjúkrahúsi en á blaðamannafundi nú klukkan 11 var upplýst að maðurinn er enn á lífi.

Upplýst hefur verið að lögreglumaðurinn stal byssu vinnufélaga síns og notaði við voðaverkið. Ekki er ljóst hvenær maðurinn stal byssunni en vopnið fannst á bílastæðinu framan við skólann þar sem skotárásin var gerð.

Konan og maðurinn voru bæði á fimmtugsaldri og munu hafa verið í sambúð en slitu henni í síðustu viku. Konan var kennaranemi og starfaði við barnaskólann. Maðurinn beið eftir konunni í bíl á bílastæði utan við skólann og þegar konan kom til vinnu sinnar steig maðurinn út úr bílnum og skaut tveimur skotum á konuna. Hann skaut síðan sjálfan sig.

Skólastjóri barnaskólans segir að engin börn hafi orðið vitni að árásinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert