Kvartettinn sem lék við embættistöku Baracks Obama á þriðjudag vakti athygli fyrir glæsilegan flutning þrátt fyrir fimbulkulda. Nú hefur þó hins vegar verið gert kunnugt um að kvartettinn, sem skipaður var heimsfrægum listamönnum, þóttist aðeins spila en tónlistin var á bandi.
Vegna kuldans þótti vissara að hætta ekki á slitna strengi eða sprungin hljóðfæri. Allur annar flutningur við embættistökuna var þó fluttur beint. „Það hefði verið ávísun á harmleik ef við hefðum gert þetta á annan hátt,“ sagði fiðluleikarinn Itzhak Perlman.
Tónlistin sem heyrðist var upptaka sem gerð var tveimur dögum fyrr. Tónlistarmennirnir léku á hljóðfæri sín við athöfnina en tónlistin var ekki mögnuð upp og því heyrðist aðeins upptakan.
Bandarískir fjölmiðlar líkja þessu við það þegar hljómsveitin Milli Vanilly varð uppvís að því að leika tónlist sína af segulbandi á tónleikum.