Obama byrjar vel í embætti

Sérfræðingar segja, að fyrstu 100 klukkustundir Baracks Obama í embætti Bandaríkjaforseta virðast hafa gengið eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og honum hafi tekist að marka skörp skil milli nýrrar ríkisstjórnar og ríkisstjórnar George W. Bush. 

Starfslið forsetans virðist hafa undirbúið fyrstu daga Obama í embætti vandlega til að Obama gæti sýnt fram á að hann léti verkin tala frá fyrsta degi.  Hann fyrirskipaði að fangabúðunum við Guantánamoflóa á Kúbu skyldi lokað, og bannað einnig leynifangelsi bandarísku leyniþjónustunnar CIA í útlöndum og að pyntingum sé beitt við yfirheyrslur.

Þá útnefndi hann tvo gamalreynda sendifulltrúa, þá George Mitchell og Richard Holbrooke, sem sérlega sendimenn sína í Miðausturlöndum, Afganistan og Pakistan. Þykir það benda til þess að Obama ætli að láta málefni þessara svæða mjög til sín taka.

Obama hefur einnig gefið til kynna að hann muni taka efnahagsmál föstum tökum. Hann hefur lagt fram áætlun um 800 milljarða dala framlag til að örva efnahaginn. Þá segir blaðið The New York Times, að forsetinn áformi að endurskoða og herða lög um fjármálaeftirlit, vogunarsjóði, matsfyrirtæki og fasteignalánasjóði.

Á föstudag aflétti Obama banni við því að veita fjárframlög til alþjóðlegra fjölskylduráðgjafarstofnana, sem tengjast fóstureyðingum. Þetta bann var hornsteinn félagsmálastefnu stjórnar Bush. Þessi ákvörðun Obama hefur þegar sætt harðri gagnrýni Páfagarðs og annarra stofnana sem andvígar eru fóstureyðingum. 

Ljóst er hins vegar að mörg og afar verkefni bíða Obama og ekki er enn ljóst hvernig þau mál, sem hann hefur þegar beitt sér fyrir, verða í framkvæmd.  

Obama sagði sjálfur í fyrsta útvarps- og netávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar í gær að efnahagsástandið væri mjög alvarlegt en ef Bandaríkjamenn tækju höndum saman, létu af flokkadráttum, og hæfust handa við að endurbyggja Ameríku, myndi þjóðin rísa upp sterkari  en nokkru sinni fyrr.  

Bandaríkjamenn virðast hafa tekið nýja forsetanum tveimur höndum. Í könnun sem Gallup gerði fyrir USA Today sögðust um 75% þátttakenda telja að Bandaríkin yrðu betur stæð eftir fjögur ár, þegar kjörtímabili Obama lýkur, en þau eru nú.  

„Það sakar ekki að hafa vind í seglunum," segir Dante Scala, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í New Hampshire. „Borið saman við tvo síðustu forseta þá er ljóst að Bandaríkjamenn vilja að þessi forseti nái markmiðum sínum hvort sem  þeir kusu hann eða ekki."  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert