Benjamin Netanyahu, formaður Likudflokksins, nýtur nú mests stuðnings meðal Ísraela til að verða næsti forsætisráðherra landsins samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Samkvæmt henni vilja 29% kjósenda helst sjá Netanyahu í forsætisráðherraembættinu að loknum kosningum í febrúar. 16% styðja hins vegar Tzipi Livni, formann Kadima flokksins og einungis 9% styðja Ehud Barak, formanna Verkamannaflokksins.
Barak nýtur hins vegar mest stuðnings flokksformanna í embætti varnarmálaráðherra en hann er nú varnarmálaráðherra í stjórn Ehud Olmerts.
Könnunin sýnir einnig að 8 þingsæti myndu skilja Likud flokkinn og Kadima flokkinn að yrði gengið til kosninga nú. Likud flokkurinn fengi nú 30 þingmenn en Kadima 22 þingmenn. Þá fengi Verkamannaflokkurinn 17 þingmenn. Flokkurinn Yisrael Beitenu fengi 16 þingsæti , Shas fengi 10, Meretz 5, United Torah Judaism 5, Hadash 4, National Union 3, The Jewish Home 3, United Arab List 3 og Balad 2 sæti.