Fengu áttbura en áttu von á sjö

Læknarnir tóku kerfisbundið á móti sjö börnum móðurinnar - fimm drengjum og tveimur stúlkum - eins og voru búnir að þaulæfa.

Þá kom það áttunda.

Þessi óvænti drengur og áttunda barnið varð til þess að þessi fjölburafræðing varð ekki einungis merkileg heldur söguleg.

„Það er frekar auðvelt að láta barn fara fram hjá sér þegar þú átt von á sjö,“ segir Harold Henry, yfirlæknir og einn af 46 manna teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og aðstoðarfólks sem tók á móti áttburunum sem teknir voru með keisaraskurði á Kaiser Permamente Bellflower Medical Center á mánudag og sagt var frá hér á fréttavefnum fyrr í morgun.

Aðeins fimm mínútum eftir að fyrsta barnið kom í heiminn kom það áttunda óvænt kl. 10.48 að þarlendum tíma. „Sónarinn sýnir þér ekki allt.“

„Ég rak upp stór augu,“ sagði Karen Maples, læknir.

Þetta voru aðeins aðrir áttburarnir sem fæðast í Bandaríkjunum.

Læknarnir sögðu að börnin - sem vógu milli 0,69 og 1,47 kg. - hefðu fæðst níu vikum fyrir tímann en að ástand þeirra væri stöðugt.

Tvö barnanna voru strax sett í öndunartæki en öndunargrímurnar hafa nú verið fjarlægðar.

„Börnunum líður vel og mömmunni heilsast vel,“ sagði Henry læknir. „Það hefur ekkert óvænt komið upp á í tengslum við skurðinn að ég best veit.“

Forsvarsmenn sjúkrahússins vildu ekki gefa upp nöfn móðurinnar né upplýsa um hvort hún hefði notað frjósemislyf. Þeir sögðu hana hins vegar ætla að hafa öll börnin á brjósti.

„Hún er afar sterk kona og ætti að geta sinnt öllum börnunum,“ segir Mandhir Gupta, sérfræðingur í brjóstagjöf.

Móðirin lagðist inn á sjúkrahús þegar hún var á 23. viku meðgöngu og fæddi sjö vikum síðar. Börnin - sem fengu sem auðkenni bókstafina frá A til H - munu væntanlega vera á sjúkrahúsinu minnst tvo mánuði til viðbótar en móðir þeirra ætti að vera útskrifuð eftir um viku.

Fyrstu áttburarnir sem komu lifandi í heiminn fæddust í Mexíkó-borg í mars 1967 en þeir dóu allir innan 14 tíma.

Fyrstu áttburarnir í Bandaríkjunum fæddust í Houston 1998, þremur mánuðum fyrir tímann. Minnsta barnið dó viku eftir fæðingu en hin sjö eru nú 10 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert