Ferðamönnum fækkar í Evrópu

Reuters

Alþjóðaferðamálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNWTO) segir að samdráttur verði í ferðamennsku í heiminum á þessu ári, en að sögn stofnunarinnar mun Evrópa finna mest fyrir samdrættinum.

Að sögn UNWTO mun efnahagskreppan í heiminum leiða til þess að erlendum ferðamönnum muni fækka um 2% í ár. Þá ríkir mikil óvissa um framhaldið. Það er hins vegar tekið fram að Evrópa muni verða fyrir mestri blóðtöku vegna ástandsins.

Talið er áfram muni mælast aukning í Asíuríkjum við Kyrrahaf, en að hún muni ekki vera jafnmikil og undanfarin ár. Sömu sögu sé að segja í Afríku og Mið-Austurlöndum.

Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs fjölgaði ferðamönnum um 6% en það breyttist snarlega á seinni helmingi ársins. Þá varð 1% samdráttur vegna efnahagskreppunnar.

Evrópumarkaðurinn staðnaði að sögn UNWTO. Ferðamönnum í Mið-Austurlöndum fjölgaði hins vegar um 11% á meðan ferðamönnum í Afríku og Ameríku fjölgaði um 4%.

Á milli áranna 2004 og 2007 fjölgaði ferðamönnum að meðaltali um 7% á ári á heimsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert