Í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Humanitarian Action Report 2009 kemur fram að UNICEF þurfi rúmlega milljarð Bandaríkjadala til að aðstoða börn og konur á neyðarsvæðum víða um heim.
Humanitarian Action Report er árleg fjárbeiðni UNICEF vegna neyðaraðstoðar og fer í ár fram á rétt rúmlega einn milljarð Bandaríkjadala til að aðstoða börn og konur í 36 löndum. Upphæðin í ár er 17 prósentum hærri en árið 2008, að stærstum hluta til að mæta aukinni þörf í austur- og suðurhluta Afríku.
„Ástandið í mörgum landanna, sem fjallað er um í skýrslunni, má skilgreina sem þögla eða gleymda neyð,“ sagði framkvæmdarstjóri UNICEF, Ann M. Veneman. „Konur og börn deyja á hverjum degi vegna sjúkdóma, fátæktar og hungurs, því miður vita fæstir af þessum dauðsföllum.“
Samkvæmt skýrslunni mun meira en helmingur fjárins sem beðið er um renna til áframhaldandi stuðnings UNICEF við fórnarlömb frá fimm alvarlegustu neyðarsvæðum heims: Austur-Kongó, Sómalíu, Súdan, Úganda og Simbabve.
Auk þess er beðið um stuðning við verkefni á hernumdu svæðum Palestínu vegna átakanna á Gaza og einna verstu þurrka sem hafa herjað á Vesturbakkann í áratug, að því er segir í tilkynningu.
Á liðnum áratugum hefur tíðni og umfang náttúruhamfara aukist verulega. Sú neyð sem fjallað er um í Humanitarian Action Report er aðeins dæmi um lítinn hluta neyðaraðgerða sem UNICEF hefur tekist á hendur. Á árunum 2005 og 2007 brást UNICEF við 276 neyðaraðstæðum í 92 löndum að meðaltali á hverju ári. Meira en helmingur þeirra var af völdum náttúruhamfara, 30 prósent vegna átaka og 19 prósent var heilbrigðistengd neyð, s.s. sjúkdómsfaraldrar.
Í skýrslunni er tekið fram að hækkandi verð á matvælum og loftslagsbreytingar hafi mikil og slæm áhrif á flest þeirra landa sem UNICEF biður um fjármagn fyrir. Samtökin eru tilbúin með aðgerðir til að bregðast við fæðuóöryggi, en frekara fjármagn þarf til að mæta knýjandi þörfum á árinu sem nú er gengið í garð.
Skýrsla UNICEF vitnar í nýlegar rannsóknir sem sýna fram á að 50 milljónir manna muni búa við aukna hættu á hungursneyð vegna loftslagsbreytinga árið 2010. Sumir sérfræðingar meta það sem svo að 65 prósent fórnarlamba hamfara af völdum loftslagsbreytinga muni verða börn og konur. Ef þessar spár reynast réttar, munu um 175 milljónir barna verða fórnalömb lofslagsbreytinga á næstu árum.
UNICEF starfar á vettvangi í meira en 150 löndum og er oft meðal þeirra fyrstu til að bregðast við neyðaraðstæðum og leiðir hluta neyðaraðgerða á ýmsum sviðum meðal þróunarstofnana Sameinuðu þjóðanna. „Það fjármagn sem safnast mun hjálpa UNICEF við að bregðast, á skilvirkan hátt, við þörfum barna í neyð,“ sagði Veneman. „Þannig mun mörgum lífum verða bjargað.“