Blagojevich fundinn sekur

Rod Blagojevich, ríkisstjóri Illinois, hefur verið hrakinn úr embætti eftir að hafa verið fundinn sekur um að hafa misnotað vald sitt. Var honum meðal annars gefið að sök að hafa freistað þess að selja þingsætið sem Barack Obama skyldi eftir sig á þingi Illinois þegar hann hvarf til annarra verka í Washington.

Demókratinn Patrick Quinn tekur við embætti ríkisstjóra.

Blagojevich var handtekinn í desembermánuði og á nú yfir höfði sér dómsmál vegna ákæra um að hafa þegið mútur í starfi og pólitísk fjárframlög gegn úthlutun verkefna á vegum Illinoisríkis.

Hann reyndi hvað hann gat að snúa við áliti öldungadeildarinnar í Illinois en hafði ekki erindi sem erfiði því allir þingmennirnir 59 greiddu atkvæði gegn honum.

Jafnframt lýsti hann yfir óánægju með að geta ekki kallað til vitnis Rahm Emanuel, starfsmannastjóra Hvíta hússins.

„Hvernig getið þið vikið ríkisstjóra úr embætti án fullnægjandi sönnunargagna?“ spurði ríkisstjórinn fyrrverandi þingmennina í viðleitni til að höfða til samúðar þeirra. „Ég höfða til réttlætiskenndar ykkar,“ sagði hann, um leið og hann viðurkenndi að hafa farið á svig við venjur í þeirri viðleitni sinni þjóna íbúum ríkisins af bestu getu.

Þingmennirnir greiddu hins vegar atkvæði með því að koma í veg fyrir að Blagojevich gæti nokkru sinni gegnt opinberu embætti aftur í ríkinu.

Réttarhöldin yfir honum tóku fjóra daga.

Rod Blagojevich var fundinn sekur um misbeitingu valds. Hann á …
Rod Blagojevich var fundinn sekur um misbeitingu valds. Hann á yfir höfði sér réttarhöld vegna ákæra um spillingu. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert