Reynt að myrða danskan vítisengil

Brian Sandberg var um tíma lífvörður Stein Bagger, sem sést …
Brian Sandberg var um tíma lífvörður Stein Bagger, sem sést á meðfylgjandi mynd.

Reynt var að ráða Brian Sandberg, einn af forvígismönnum vítisengla í Danmörku af dögum í dag. Skotið var á Sandberg þar sem hann sat á kaffihúsi í miðborg Kaupmannahafnar. Sandberg var fluttur á sjúkrahús en reyndist ekki alvarlega sár og er nú í yfirheyrslu á lögreglustöð. Leitað er tveggja manna í tengslum við skotárásina.

Að sögn lögreglu lenti ekkert skot í Sandberg en hann skarst af steinflísum sem lentu í honum. 

Sandberg er þekktur í undirheimum Danmerkur. Hann komst í fréttir nýlega þegar upplýst var, að hann hafði verið launaður lífvörður danska kaupsýslumannsins Stein Bagger, sem varð uppvís af því að hafa svikið hundruð milljóna króna út úr fyrirtækini IT Factory, sem hann stýrði. Bagger situr nú í gæsluvarðhaldi.

Fyrr í dag yfirheyrði danska efnahagsbrotalögreglan Sandberg um tengsl hans við Bagger. Þaðan ók Sandberg til í höfuðstöðvar Vítisengla og síðan á kaffihúsið Joe & The Juice í miðborginni. Þar sat hann að snæðingi ásamt öðrum félaga í Vítisenglum þegar skotið var á þá gegnum glugga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka