Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnaði í dag einum fyrsta sigri sínum í embætti eftir að þingið samþykkti 819 milljarða dala áætlun um örvun efnahagslífsins. Repúblikanar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna og vonast forsetinn til að fá nokkra þingmenn úr þeirra röðum til að styðja við áætlunina.
Obama gagnrýnir harðlega ríkulegar aukagreiðslur á Wall Street í fyrra, á árinu sem er eitt hið versta á mörkuðum þar í manna minnum.
Repúblikaninn Judd Gregg hefur upplýst að hann komi til greina sem viðskiptaráðherra í stjórn Obamas en fari svo að hann verði fyrir valinu mun það hafa veruleg áhrif á þinginu.
Þannig myndi Gregg, sem er öldungadeildarþingmaður í New Hampshire, skilja eftir sig sæti sem ríkisstjórinn John Lynch, sem er demókrati, gæti fyllt með demókratanum Al Franken.
Með því móti hefðu demókratar 60 sæti í öldungadeildinni, eða nógu mörg til að geta komið í veg fyrir að repúblikanar geti beitt málþófi.