Erdogan strunsaði út

Recep Tayyip Erdogan, foræstisráðherra Tyrklands, reiddist þegar hann fékk ekki að ljúka máli sínu á ráðstefnu Heimsviðskiptastofnunarinnar í Davos í Sviss í gærkvöldi. Hann stóð upp, sagðist aldrei ætla að koma á slíka ráðstefnu aftur, og gekk af sviðinu.

Verið var að ræða um málefni Ísraelsmanna og Palestínumanna og í pallborði voru, auk Erdogans, Shimon Peres, forseti Ísraels,  Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Amr Mussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins. 

Peres hélt m.a. langa tölu þar sem hann varði hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna á Gasasvæðinu og sagði m.a. að Hamassamtökin hefðu breytt Gasasvæðinu í hættulegt einveldi. Síðan benti hann á Erdogan og sagði að Tyrkir hefðu gert það sama og Ísraelsmenn ef eldflaugum hefði verið skotið á Istanbul.

Erdogan, sem hefur reynt að skapa Tyrkjum hlutverk sem samningamönnum í Miðausturlöndum, sagði þá að Ísraelsmenn hefðu hagað sér villimannslega á Gasa. „Það er sárt að heyra að fólk fagnar því sem þú hefur sagt því margir hafa verið drepnir," sagði hann við Peres.

David Ignatius, blaðamaður Washington Post, sem stýrði pallborðsumræðunum, reyndi að stöðva Erdogan, sagði að tíminn væri búinn og ekki væri hægt að hefja umræður að nýju. Þá stóð Erdogan upp og gekk á dyr.

Að sögn tyrkneskra embættismanna hringdi Peres í Erdogan í gærkvöldi og baðst afsökunar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert