NATO sakað um ólöglegar aðgerðir

Í Afganistan er ræktaður stærsti hluti þess valmúa, sem notaður …
Í Afganistan er ræktaður stærsti hluti þess valmúa, sem notaður er til að framleiða ópíum. Reuters

Þýska tímaritið Der Spiegel segir, að NATO hafi gefið út leynilegar og ólöglegar leiðbeiningar um, að hermenn á vegum samtakanna í Afganistan geti drepið eiturlyfjabaróna og ópíumkaupmenn. Segir tímaritið að harðar deilur séu vegna þessa innan NATO og hafin sé innri rannsókn á málinu.

Der Spiegel segir að John Craddock, yfirmaður herafla NATO, hafi gefið þessar leiðbeiningar út. Segist blaðið hafa undir höndum gögn sem fjalli um stefnumótun NATO í stríðinu við afganska eiturlyfjabaróna og tilraunir til að stemma stigu við ópíumframleiðslu í landinu.

Blaðið segir, að margir af hershöfðingjum NATO í Afganistan neiti að fallast á þá nýju stefnu, sem hafi verið mótuð enda telji þeir hana ganga í berhögg við alþjóðalög og þær leikreglur, sem NATO hafi haft í heiðri. 

Deilan snýst um skilgreiningar á því hvaða aðferðum þeir 50 þúsund hermenn NATO í Afganistan geti beitt til að stöðva fíkniefnaviðskipti, sem eru afar ábatasöm fyrir uppreisnarmenn talibana og hryðjuverkasamtökin al-Qaeda.

Spiegel vitnar í leyniskjöl um að hermenn hafi heimildir til að ráðast á fíkniefnaframleiðendur og fíkniefnaverksmiðjur í öllu landinu.  Ekki sé nauðsynlegt að fyrir liggi nákvæm rannsókn eða aðrar sannanir fyrir því að hver einstakur fíkniefnasmyglari eða fíkniefnaverksmiðja standist skilgreiningar um „hernaðarskotmark."

Spiegel segir að Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, vísi á bug ásökunum um ólöglega stefnumótun. Hann hefur látið hafa rannsókn á því hver lak skjölunum til þýska blaðsins. 

Framkvæmdastjórinn vísar til þess, að varnarmálaráðherrar NATO hafi í október á fundi í Búdapest ákveðið, að NATO-hermenn ráðist gegn fíkniefnakóngum í Afganistan til að stöðva fjárstreymið til talibana. Leiðbeiningarnar séu því aðeins frekari útfærsla á þessari ákvörðun. Hins vegar sé ekki um að ræða fyrirskipun.

„Hann hefur ekki nú og aldrei fyrr gefið út ólöglegar fyrirskipanir," segir  Scheffer í tilkynningu um ásakanirnar á hendur Craddocks. 

Craddock var staddur hér á landi í vikunni á ráðstefnu á vegum NATO um öryggismál á norðurslóðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert