Alþjóðabankinn og AGS úreltir?

Gordon Brown talar á fundi World Economic Forum í dag
Gordon Brown talar á fundi World Economic Forum í dag DENIS BALIBOUSE

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands sagði í viðtali á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í dag að leiðtogar heimsins þyrftu í sameiningu að gera endurbætur á alþjóðlegum fjármálastofnunum til að koma í veg fyrir að þær aðstæður sem leiddu til heimskreppunnar nú geti endurtekið sig.

Hann sagði að leiðtogar heimsins myndu bregðast ef þeir nýttu ekki kreppuna nú til að byggja upp umhverfisvænna, stafrænna og hæfara efnahagsumhverfi. „Við þurfum að vera miklu djarfari og miklu hugmyndaríkari,“ sagði Brown. „Við viljum skapa gott alþjóðasamfélag, en þá þurfum við að hafa alþjóðlegar stofnanir sem virka og vandamálið er það að stofnanirnar sem við komum á fót fyrir 60 árum eru orðnar úreltar.“

Brown sagði að ríkisstjórnir heimsins þyrftu nú að eiga við fyrstu efnahagskrísuna á tímum hnattvæðingar. „Það eru engar skýrar leiðir frá fyrri reynslu um hvernig er best að eiga við þetta. Við erum núna að læra um ný vandamál sem hafa engar sögulegar hliðstæður til að miða við.“ Hann sagði nauðsynlegt að endurreisa traust á fjármálakerfinu og tók undir hugmyndir Angelu Merkel um að stofna þyrfti alþjóðlegt regluverk sem hefði taumhald á „skammtíma ábyrgðarleysi, áhættusækni og óhófi.“

Hann sagði nauðsynlegt að þjóðir heimsins samræmdu aðgerðir sínar til að koma bönkunum aftur á ról og varaði við því að þverrandi lánstraust og fjárfestingar bitnuðu á þróunarlöndunum. „Þau lönd sem munu fara verst út úr því ef við beitum okkur ekki eru fátækustu löndin. Þau verða svipt fjármagni og enginn verður tilbúinn að fjárfesta í þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert